Loksins Röskvusigur

röskvusigur

Það var þó aldrei að maður fengi ekki að upplifa kosningasigur, svona einu sinni!

Stemningin í gærkvöldi var náttúrlega ólýsanleg þegar í ljós kom að yndislegi Ítalinn okkar, hann Fabrizio, hafði brotið blað og var orðinn fyrsti erlendi neminn til að sitja í Stúdentaráði. Ekki verra að hann var líka fimmti maður Röskvu, ótrúlegt kraftaverk og Röskva loksins aftur í meirihluta í Stúdentaráði!

Það að hafa starfað með Röskvu hefur verið algjört ævintýri og mestu forréttindi. Og ótrúlegt hvað félagið hefur stækkað og byggst upp á þessum tíma! þegar ég mætti á minn fyrsta fund og var kjörin í stjórn Röskvu í október 2003 var félagið í sárum eftir tvo kosningaósigra í röð, fyrst þegar meirihlutinn tapaðist með fjórum atkvæðum árið 2002 og aftur árið eftir þegar fjórði maður Röskvu datt út úr ráðinu. 

Að fylgjast með og fá að taka þátt í uppbyggingu félagsins síðan hefur verið alveg ótrúlegt. Þrátt fyrir að við höfum tapað kosningunum árið eftir var Röskvusóknin hafin, og hefur staðið óslitið síðan (þó að það hafi óneitanlega staðið tæpt í fyrra .....) 

Góð kona sagði einu sinni við mig þegar við höfðum tapað kosningum að það væru í raun ekki úrslitin sem skiptu öllu máli þegar kæmi að Röskvu, heldur miklu frekar reynslan og vinirnir sem maður eignast. Það er auðvitað rétt, enda kynntist ég stórum hluta þeirra sem ég lít á sem bestu vini mína í dag í gegnum Röskvu, hef lært óendanlega mikið og er frábærum kærasta ríkari. 

En vá, hvað er samt svít að vinna! Og alveg frábært að eiga Stúdentaráð sem er alvöru baráttuafl á kosningavori.


Að kjósa Röskvu er góð skemmtun

Nú er bara að muna eftir að kjósa Röskvu á miðvikudaginn og fimmtudaginn! opið 9-18 í öllum byggingum HÍ (og núna líka Ármúla í fyrsta sinn!)


Bíó dagsins

Geta bandarískar kvikmyndir ekki lengur talist góðar án þess að vera ofurlangar? 

var að koma af Babel í bíó og jú, hún var mjög góð. En alveg óþarfa rúmlega tveir og hálfur tími! hefði meira að segja verið miklu betri ef hún hefði verið stytt aðeins, tjillað á dramanu og reynt frekar að draga fram það sem raunverulega skipti máli.

í rauninni var sömu sögu að segja af Little Children, sem var mjög góð líka. En samt, of löng. Eða ég of óþolinmóð, veit ekki.

Myndir geta auðvitað verið þriggja tíma langar og frábærar, alltaf eitthvað nýtt og manni leiðist aldrei. Ég skil samt ekki af hverju allar myndir eru orðnar yfir tveir klukkutímar! til þess ætti einungis að grípa í undantekningartilfellum þegar fólk hefur virkilega eitthvað að segja hverja einustu mínútu. 

en kannski er ég ekkert rétta manneskjan til að dæma um þetta, ég sem hef eiginlega aldrei einu sinni þolinmæði til þess að horfa á heila vídjómynd.

Magasár

Hvar er skynsemin mín? Ég hef fyrir reglu að læra yfirleitt aldrei neitt fyrren ég er eiginlega orðin of sein og þarf að taka á öllu sem ég á í örfáar vikur til að landa einingunum mínum. 

Vægast sagt frekar þreytandi! Og súrt að sitja með magasár að lesa um magasár, geta ekki skemmt sér fyrir viðbjóðslegu stressi og vitleysu og láta allt annað sitja á hakanum. 

Fegin að þessi síðustu próf eru bráðum búin og ég þarf aldrei aftur að mæta í viðbjóðs-Ármúla!


Næturdýrið ég

Við kötturinn minn Muggur eigum sameiginlegt að vilja sofa á daginn og vaka á nóttunni. Ég verð oft ótrúlega hissa yfir hvað næturnar eru alltof mikið minn tími, þá er einbeitingin í hámarki og ég get lært miklu betur en á daginn.

Það er samt alveg fáránlegt að glaðvakna þegar allir heima hjá mér eru á leiðinni í rúmið, og það jafnvel þó að ég hafi vaknað snemma og verið að farast úr syfju allan daginn. Svo hentar þetta í ofanálag fáránlega illa! Skólinn byrjar eldsnemma á morgnana og það er ekkert að gerast á nóttunni, þegar minn tími kemur!

Kannski flott bara að vera að mennta sig í fagi sem felur í sér vaktavinnu .... kannski ég sleppi öllum morgunvöktum, vinni bara á næturnar og verði frábær læknir!


Á grænu ljósi

Ágæt helgi að baki þrátt fyrir að próflestur, þó að hann sé eiginlega bara í þykjustunni, hamli óneitanlega djammmöguleikum umtalsvert. 

Ég sá alveg fáránlega skemmtilega danssýningu á föstudaginn! það var á vegum Sögu æskuvinkonu sem stóð fyrir þessu ásamt einni íslenskri og tveimur ísraelskum vinkonum sínum - víkingar og gyðingar! ótrúlega vel heppnað og frábært framtak í alla staði.

Þorrablót Röskvu var líka skemmtó, þar þurfti enginn á bjór að halda og Pétur nokkur Markan hélt uppi brjáluðu stuði einn og edrú með gítarinn. Nú er frost á fróni vakti lukku meðal útlendinganna, og Gleði, gleði vakti einnig mikla lukku, meðal fyrrum MH-inga ...

Á laugardaginn dró ég síðan kærastann minn nauðugan viljugan í bíó. Við vorum samt bæði sátt við það, eftir á að hyggja. Myndin var Little children og reyndist afar góð. Græna ljósið er mikið að mínu skapi, það er ekkert hlé (sem er bara snilld, ef maður fær sér ekkert að drekka þeas) auk þess sem hið dásamlega Fréttablað gefur lesendum sínum tveir fyrir einn á frumsýningarhelgi! Vel þegið, enda myndi ég nú ekki beint orða það þannig að það sé ókeypis í bíó!

Að plögga Fréttó á Moggabloggi er annars góð skemmtun!


Lífræn Helga

Nú þegar ég er hætt að drekka hið ógeðslega ólífræna Coca-cola er svo sannarlega öðruvísi um að litast í kjallaranum fína, Reynimel 26.

Ég fer í Melabúðina á hverjum degi, og ekkert ólífrænt fær að rata ofan í körfuna mína. Heppilegt, því eiginlega allt í Melabúðinni er lífrænt. Lífræn vínber og epli, lífræn AB-mjólk, lífrænn ávaxtasafi og trefjamúslí (sem ég hef reyndar grunað um að vera ansi sykrað en borða samt því eftir að hafa eytt ófáum dögum í að lesa um sjúkdóma ristils kemur ekki annað til greina en að borða allar þær trefjar sem maður kemst í!)

Næsta skref er að dúkka allt í einu upp í ræktinni, sjálfri mér og öðrum til furðu, helst eldsnemma um morgun!


Ójöfnuðurinn

Mæli með stórgóðri grein Agnars Freys á Vefritinu í dag.

Dæmigert fyrir Vöku!

Vaka hefur haft strák í 1. sæti seinustu fjögur ár á framboðslistanum sínum. Vaka hefur ekkert viljað stuðla að jafnari kynjahlutföllum í kennaraliði skólans og hefur beinlínis talað gegn kynjajafnrétti.
Það kemur manni ekkert á óvart að þau fái bara karla til að tala þarna. 
Ömurlegt að koma svona fram undir nafni Stúdentaráðs og sverta það fyrir framan alþjóð.

mbl.is Tilviljun réð kynjaskiptingu á lokahófi Rannsóknardaga HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röskva er á móti skólagjöldum

Röskva hefur margsinnis með orðum sínum og gjörðum sýnt í verki andstöðu félagsins við skólagjöld, í ótal blaðagreinum og á mótmælafundum, nú síðast á vel heppnuðum Meðmælum sem Stúdentaráð stóð fyrir í október að frumkvæði Röskvu.

Þeim sem eru í vafa um afstöðu Röskvu er bent á heimasíðu samtakanna þar sem hugmyndum um skólagjöld hefur ítrekað verið mótmælt. Einstaka þingmenn samfylkingar geta verið á annarri skoðun, en það hefur auðvitað ekkert með Röskvu að gera.


mbl.is Stúdentar við HÍ stofna Innovit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband