Lærudjamm í boði GusGus

Lærudjammið í kvöld er í boði GusGus - held að það hljóti að vera uppskrift að úrvalskvöldi. Svo ætla ég að koma með fullt af nammi á tíu-hittinginn í Ármúla. Blóðið er viðfangsefni kvöldsins ... húrra fyrir því!

Ég trúi því eiginlega ekki að þetta sé að verða búið, af hverju eru ekki bara alltaf próf? 


Inni/úti

INNI:

- próflok á mánudaginn og sem marka að ég held endalok preklínísku áranna!

- mojito á mánudagskvöld og árshátíð föstudaginn á eftir

- rannsóknarverkefnið mitt

- Kenýa eftir bara rétt rúma þrjá mánuði og Austur-Evrópa og Berlín í ágúst

- minnisreglur og minnismyndir

- klíník

- vorið sem kemur bráðum 

ÚTI: 

- próflestur í fjóra daga í viðbót

- fjögurra klukkustunda próf með yfir 200 krossaspurningum

- einhæft nám með lestri skólabóka og fyrirlestrum

- stóri bunkinn af greinum sem ég þarf að lesa út af blessuðu verkefninu

- kynfæri kvenna! 

- ógeðslegur kuldi 


Jafnréttir stjórnmálaflokkar?

Róttækur tónn Vinstri grænna í jafnréttismálum á landsþinginu um helgina er mér að skapi. Ég er  nefnilega viss um að eina leiðin til þess að ná fram jafnrétti kynjanna er að grípa tímabundið til sértækra aðgerða, þangað til svo er komið að konur og karlar geta loks keppt á jafnréttisgrundvelli. 

Mér hins vegar leiðist mikið umræðan sem hefur komið upp þar sem fulltrúar flokkanna reyna að keppast um það hvaða flokkur sé mesti femínistaflokkurinn. Samfylkingin hampar formannunum meðan VG og Framsókn telja hausa á framboðslistum. Sjálfstæðisflokknum er reyndar ekki viðbjargandi frekar en fyrri daginn .... 

Ég held að niðurstöður prófkjara og skipan á lista Samfylkingarinnar á landsvísu sanni að það er brýn þörf á einhvers konar kynjakvótum til þess að jafna stöðu kvenna og karla á framboðslistum. Það hefur VG gert og það er að ég held ein meginástæða þess að kynjakvótar flokksins hefðu farið að virka í öfuga átt (þ.e. að hygla körlum!) í prófkjöri flokksins á Reykjavíkursvæðinu fyrr í vetur. 

Hins vegar má ekki heldur gera lítið úr því að kona í forystu í íslenskum stjórnmálum er gríðarlega mikilvæg fyrir jafnréttisbaráttuna. Það er nefnilega ekki nóg að konur séu varaformenn stjórnmálaflokkanna og ráðherrar (þótt það sé í sjálfu sér ágætt). Konur verða líka að vera formenn og forsætisráðherrar til jafns við karla.

.... undarlegust finnst mér samt umræðan um að í Framsóknarflokknum sé allra flokka mest jafnrétti. Framsóknarmenn hrósa sér af jöfnum kynjahlutföllum í ráðherraliði flokksins sem er auðvitað hið besta mál! Hins vegar má alveg muna eftir því að þau hlutföll urðu ekki jöfn fyrren eftir að ungur maður (sem tekinn hafði verið framfyrir reynslumeiri konur) hætti í félagsmálaráðuneytinu auk þess sem kvenráðherra var á sínum tíma fórnað til þess að formaður flokksins (sem var og er karl) gæti orðið forsætisráðherra!


One to go!

Þetta er svo sannarlega maraþonhlaup. Enn einn áfanginn kláraðist sem betur fer í morgun, og í þessum töluðu orðum er ég algjörlega að gíra mig upp fyrir lokasprettinn! 

Helgin var eftirminnileg. Ég veit ekki hvað stóð uppúr - kalkútfellingarnar í heilahimnuæxlinu sem ég leitaði síðan að án árangurs í einu eggjaleiðarasýnanna, súru en afspyrnugóðu minnisreglurnar um kalkaða ömmu sem borðar ekki ost eða einungis sú staðreynd að sitja klukkan hálfellefu á laugardagskvöldi að skoða smásjársýni .... 

Ég hlakka viðurstyggilega mikið til þann fimmta mars því þá verður drukkinn bjór og aftur gaman að lifa. Árshátíð læknanema föstudaginn eftir verður svo sannarlega eitthvað .... (ég hugsa að við þriðja árs fólkið verðum eins og litlir kálfar á vori og sláum öðrum árum ref fyrir rass í ölvun og hressleika!)

Þá verður líka mögulega hægt að byrja að lesa bloggið mitt aftur! Þangað til:

[Vefritið: áhugasömum bendi ég á góða helgarumfjöllun Önnu Pálu um klám (eiginlega skyldulesning fyrir alla sem hafa tjáð sig um stóru klámráðstefnuna) og aðra mjög góða um kyngervingu stúlkna frá blautu barnsbeini eftir Tótu.]


Morgunstund gefur gull í mund

Þetta orðatiltæki hef ég svo sannarlega ekki tileinkað mér, enda hrifnari af því að sofa á morgnana en að nota þá til góðra verka. Í morgun skelltum við mamma og Steindór okkur hinsvegar á fund í morgunsárið, sem var aldeilis skemmtileg tilbreyting!

Þá átti sér stað stefnumót við stjórnmálaflokkana um kynbundið ofbeldi. Góður fundur og gagnlegur, og þá sérstaklega að heyra frá fulltrúum stjórnmálaflokkanna hvað þeir sjá til ráða til þess að vinna bug á þessu vandamáli, sérstaklega í ljósi þess að einungis brot af kynferðisbrotamálum sem efnt er til enda fyrir dómstólum .... 

Ágúst Ólafur var góður og kom meðal annars með mjög góðan punkt, grundvallaratriðið að efla fræðslu um þennan málaflokk. Stefnan sem umræðan um klámþingið hefur tekið held ég sanni hans mál. Bendi að því tilefni á á afar góða grein stjórnmála- og kynjafræðingsins Evu um orðræðuna sem birtist á Vefritinu í dag. Algjör skyldulesning fyrir femínista og aðra ....


Burt með lyfjafræðina!

Er ekki kominn tími til að blogga burtu lyfjafræðimadnessið? jújú, prófið búið og gekk sæmilega (allavega miðað við undirbúning og fyrri störf). Hrósið fær klárlega Guðrún Lilja fyrir að kenna mér súrustu sögu heimsins um herra Parkinson (sem kom svo sannarlega í góðar þarfir!)

Ég veit svosem ekki hvað ég get bloggað um sem er skemmtilegt að lesa þar sem ég fer aldrei út úr húsinu mínu! Ætla að snúa mér að meinafræðinni og bendi fólki á meðan á Vefritið þar sem birtar eru góðar greinar alla daga!

5. mars nálgast, dagurinn sem heldur í mér lífinu! 


Góðar fréttir af árshátíðum og innöndunarúðum

hvad heitir innöndunarúdinn tinn? svar óskast, kv. systir tín sem á ekkert líf

þetta "skemmtilega" sms barst Önnu systur minni á árshátið Orators, þar sem ég efast ekki um að er aðeins meira stuð en hér heima yfir lyfjafræðibókunum. Veit ekki hvenær ég mun gefast endanlega upp á því að vera alltaf í prófum á skjön við aðra og skrá mig í eitthvað eðlilegt nám.

Góðu fréttirnar eru samt þær að ég vissi hvaða tegund af innöndunarúða hún væri að nota, jafnvel áður en hún sagði mér það!

já, svona þarf lítið til að gleðja lífleysingja. 


Að æra óstöðugan

.... er ekki erfitt þegar ég á í hlut. Ekki nóg með að námskeiðið sé ömurlega skipulagt, dularfull hvörf hafi orðið á tímaglósum í tölvunni minni í stórum stíl og fyrirlestrar séu ýmist ofurvel faldir á ýmsum stöðum á internetinu eða beinlínis ekki aðgengilegir!

Nágrannar mínir ákváðu nefnilega líka að nota þennan tíma til þess að gera upp íbúðina sína! Og í dag er ástandið búið að vera þannig að mér hefur liðið eins og ég væri með smið í fullri vinnu staddan við hliðina á mér að negla nagla í vegg.

Þannig að nú er ég stödd í kastala íslenskrar menningar, Þjóðarbókhlöðu! og hér er kyrrð og ró, vona að þeir taki nú ekki uppá því að fara að bora í holræsin á Birkimelnum.


Hin æsispennandi lyfjafræði

Lyflækningar hef ég ekki hugsað mér að leggja fyrir mig! Hentar mér bara ekki baun að læra utanað skrilljón lyfjaheiti, milliverkanir og hjáverkanir. Hefði hugsanlega gengið betur ef ég hefði byrjað á því fyrr, en það er víst ekki um að ræða úr þessu. 

Líka hörmung að vera veik meðan á öllu þessu stendur, og missa í ofanálag af sigur- og afmælishátíð Röskvu, sem ég hefði svo gjarnan viljað vera viðstödd. En ég hvet alla vini Röskvu til að láta sjá sig! klukkan 20 á Deco!

Hversu djúpan skilning á lyfjafræði getur maður öðlast á einni viku við lestur bókanna Pharmacology Condensed, Medical Pharmacology at a glance og powerpoint slæd-sjóva? Stay tuned, þetta er æsispennandi!


Félagshyggjan mun á endanum sigra

Félagshyggjan er greinilega í sókn! sem er gott. Líst vel á ríkisstjórn VG og Samfylkingar! 

(jájá, ég veit að skoðanakönnun er bara skoðanakönnun en eftir úrslit sem ég hélt að væru með öllu útilokuð í Háskólanum er ég farin að hafa trú á því að allt sé hægt!) 

Ég get ekki stillt mig um að sýna öllum heiminum (eða sko, því brotabroti sem skoðar þetta blogg!) mynd af ofurduglega og myndarlega fólkinu í Röskvu. Óska þeim góðs gengis að láta rödd stúdenta hljóma allstaðar!

roskvaminni

Sérstaklega langar mig að benda á þennan nývaknaða strák, bara vegna þess að mér finnst hann svo krúttlegur:

 steindor

Vonast til að sjá allt þetta fólk og fleiri til á morgun, ef ég verð ekki enn lasin. Vona reyndar líka að mér fari að batna til þess að lyfjafræðin fari ekki í meira hakk en þegar er orðið .... (fokk)

- annars finnst mér meira en lítið dularfullt að sitja núna með flensu að lesa um veirulyf! held ég sé búin að búa mér til einhvers konar örlög! nema auðvitað að þetta sé allt saman bara ímyndun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband