Af konum og körlum

Þó að mér finnist margt flott fólk og margir góðir listar hafa litið dagsins ljós í prófkjörum síðustu daga get ég ekki annað en svekkt mig aðeins á því að mér finnst konum bara alls ekki hafa gengið nógu vel.

Hvergi hefur kona sigrað í opnu prófkjöri, og munu konur engan lista leiða enn sem komið er nema Siv í suðvestur fyrir framsókn, og ekki er ég annars hrifin af þeim flokki! Kynjahlutföllin eru hvergi konum í vil, svo ég muni til, og yfirleitt eru karlar í meirihluta og/eða skipa 2-3 efstu sæti framboðslistanna þar sem þegar er búið að kjósa.

Mér fannst til dæmis voða mikið svekk í gærkvöldi að konan sem var lengi af í 2. sæti hjá Samfylkingunni í suður skyldi detta niður í fjórða, þrjú efstu sætin eru nú skipuð köllum og það var bara kynjakvóta að þakka að það er ekki bara ein kona í topp fimm á þessum annars ágæta lista!

Ég held bara að meðan staðan er svona eru kynjakvótar það eina sem blífur, það er að segja ef við ætlum ekki bara að sætta okkur við að Alþingi sé að miklum meirihluta skipað körlum (Aggi, kommentakerfið er opið!) Auðvitað eru líka fleiri prófkjör eftir, og við verðum bara að hafa það í huga þegar við kjósum í þeim að veita konum framgang til jafns við karla!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Er ég ekki knúinn til að kommenta eftir þessa áskorun??

Ætla að byrja á að taka það fram að ég deili áhyggjum þínum af því hve fáar konur munu skipa framvarðarsveitir stærstu stjórnmálaflokkanna í kosningunum í vor. Mér finnst hins vegar alveg fráleitt að láta eins og það þyrfi kynjakvóta til þess að svo megi verða. Ef við tökum t.d. bara suðurkjördæmið hjá Samfó sem dæmi:

12 karlar voru í framboði, 5 konur. Karlarnir sóttust að meðaltali eftir sæti 2,7 á meðan konurnar sóttust að meðaltali eftir sæti 3,4. Engin kona sóttist eftir efsta sætinu og einungis 2 sóttust eftir öðru sæti. Á sama tíma sóttust 3 karlar eftir efsta sætinu og 4 eftir 2. sætinu. Sem heild þá uppskáru kynin einfaldlega eins og til var sáð - karlar sóttust af miklum krafti og fjölda eftir því að vera í forystu, konur sóttust eftir neðri sætum og voru fáar í þokkabót.

Sem lausn á þessari niðurstöðu er kynjakvóti hvorugt - réttlátur eða jafnréttismiðaður. Vandamálið liggur augljóslega í því hversu fáar konur sóttust eftir háum sætum miðað við karlmennina - og að 3 karlanna voru sitjandi þingmenn og sá fjórði landsþekktur fjölmiðlamaður. Ég er ekki með lausnina á takteinunum, viðurkenni það alveg. Það væri allavegana góð byrjun að vinna markvisst að því að fjölga konum í framboði og fjölga konum sem sækjast eftir forystu. Ég er handviss um að það muni stuðla að jafnari kynjaskiptingu... hvort að víðtækari aðgerða sé þörf má vel vera. Sem jafnréttissinni (og jafnvel feministi?) gúddera ég hins vegar ekki að þvingaðir kynjakvótar séu rétta leiðin.

Agnar Freyr Helgason, 7.11.2006 kl. 14:14

2 Smámynd: Helga Tryggvadóttir

Já, auðvitað væri æskilegast að breyta þessu með markvissum aðgerðum sem hvetja konur til þess að bjóða sig fram og sækjast frekar eftir forystusætum (samþykki þó ekki að það sé allur munur að sækjast að meðaltali eftir sæti 2,7 eða 3,4 ....)

Hins vegar er þetta líka vítahringur - eins og þú bendir réttilega á voru þrír karlanna í framboði í Suðurkjördæmi sitjandi þingmenn og einn landsþekktur fjölmiðlamaður. En hvernig verður þetta í aðdraganda næstu kosninga þegar þrír karlmenn sem allir eru þingmenn vilja aftur bjóða sig fram? Og eiga konur aldrei að fá breik á móti þessum körlum? 

Ég held að sértækar aðgerðir á borð við kynjakvóta þurfi til þess að leiðrétta svona slagsíðu, jafnvel þó að þær séu kannski ekki æskilegar til langframa. Þó að það væri ekki nema bara til þess gefa konum tækifæri til að brjótast út úr þessum vítahring.

Helga Tryggvadóttir, 7.11.2006 kl. 14:39

3 identicon

Að konur vilji ekki bjóða sig fram er líka vandamál, ekki bara ástæða vandamáls.

Annars er það svo að þetta er alls ekki alls staðar eins og í suðurkjördæminu að konur sækjast ekki eftir forystusætum. Til dæmis hefur viðhorfskönnun RIKK sýnt fram á að konur sækjast jafnt og karlar eftir framgöngu í starfi. Hins vegar skilar það þeim ekki sama árangri og körlunum. Ástæðan er valdaójafnvægi kynjanna í þjóðfélaginu og það verður ekki upprætt með öðrum leiðum en að sýna fordæmi þess að konur séu stjórnmálaleiðtogar og stjórni fyrirtækjum. Annars er þetta bara órjúfanlegur múr.

 Annars finnst mér rökin um fáar konur í suðurkjördæmi skipta litlu... er það ekki baráttumál ykkar Ungra Jafnaðarmanna að landið verði eitt kjördæmi?

Steindór (IP-tala skráð) 7.11.2006 kl. 23:50

4 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Ég hef nú reyndar miklar efasemdir um að það sé heppilegt að landið sé eitt kjördæmi... en það myndi vafalaust leiða til þess að hlutur kvenna yrði stærri á listunum flokkanna og öruggum sætum þeirra myndi fjölga. 

Annars held ég að það verði mjög forvitnilegt að fylgjast með niðurstöðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þar bjóða amk fjórar mjög öflugar konur sig fram til forystu og efast ég ekki um að þær muni verða ofarlega, án hjálpar kynjakvóta.

Agnar Freyr Helgason, 8.11.2006 kl. 11:38

5 identicon

Ég efaðist. Og sjá!

Stígur Helgason (IP-tala skráð) 14.11.2006 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband