Föstudagur, 29. september 2006
Myrkrið
Myrkvinn í gærkvöldi var nú ekki alveg jafn tilkomumikill og ég hafði vonað. Við búin að slökkva öll ljósin klukkan tíu, og fjölmenntum út á fínu svalirnar til að njóta myrkursins út í ystu æsar. En nei, ekkert svo mikið myrkur. Þessir eyðilögðu fína myrkrið fyrir okkur hinum og fara því á svarta listann:
Kári Stefánsson og ÍE, Þjóðarbókhlaðan fær feitan mínus, Lögberg og Oddi (Öskjuljósin voru sem betur fer samviskusamlega slökkt klukkan tíu), Stúdentaráð (við sáum ljósin þar alla leiðina hingað heim á Laufásveginn). Allur Hafnarfjörður eins og hann leggur sig, útlendingarnir á Hótel Sögu að ógleymdum öllum þeim sem gátu ekki sleppt því að keyra bílana sína milli tíu og hálfellefu.
Skýin voru líka ljót að byrgja fyrir okkur stjörnurnar ...
Síðan voru ljósin kveikt aftur. Við vorum einmitt að velta fyrir okkur hvort það hefði verið hætt við að tendra aftur götuljósin í Reykjavík þegar við sáum litla glætu á öllum ljósastarunum. Mínútu seinna voru þau aftur farin að lýsa af fullum styrk, eiginlega alveg án þess að maður tæki eftir neinum mun!
Mér fannst samt flott og táknrænt að þessi myrkvi átti sér stað sama dag og byrjað var að hleypa vatni í Hálslón. Það kom einmitt áhugaverð hugmynd upp á svölunum heima hjá mér, að gera þetta bara á hverju kvöldi og hætta við Kárahnjúkavirkjun!
Næstum að ég vildi heldur lifa í myrkri en að koma þessari helvítis virkjun í gagnið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.