Jafnréttir stjórnmálaflokkar?

Róttækur tónn Vinstri grænna í jafnréttismálum á landsþinginu um helgina er mér að skapi. Ég er  nefnilega viss um að eina leiðin til þess að ná fram jafnrétti kynjanna er að grípa tímabundið til sértækra aðgerða, þangað til svo er komið að konur og karlar geta loks keppt á jafnréttisgrundvelli. 

Mér hins vegar leiðist mikið umræðan sem hefur komið upp þar sem fulltrúar flokkanna reyna að keppast um það hvaða flokkur sé mesti femínistaflokkurinn. Samfylkingin hampar formannunum meðan VG og Framsókn telja hausa á framboðslistum. Sjálfstæðisflokknum er reyndar ekki viðbjargandi frekar en fyrri daginn .... 

Ég held að niðurstöður prófkjara og skipan á lista Samfylkingarinnar á landsvísu sanni að það er brýn þörf á einhvers konar kynjakvótum til þess að jafna stöðu kvenna og karla á framboðslistum. Það hefur VG gert og það er að ég held ein meginástæða þess að kynjakvótar flokksins hefðu farið að virka í öfuga átt (þ.e. að hygla körlum!) í prófkjöri flokksins á Reykjavíkursvæðinu fyrr í vetur. 

Hins vegar má ekki heldur gera lítið úr því að kona í forystu í íslenskum stjórnmálum er gríðarlega mikilvæg fyrir jafnréttisbaráttuna. Það er nefnilega ekki nóg að konur séu varaformenn stjórnmálaflokkanna og ráðherrar (þótt það sé í sjálfu sér ágætt). Konur verða líka að vera formenn og forsætisráðherrar til jafns við karla.

.... undarlegust finnst mér samt umræðan um að í Framsóknarflokknum sé allra flokka mest jafnrétti. Framsóknarmenn hrósa sér af jöfnum kynjahlutföllum í ráðherraliði flokksins sem er auðvitað hið besta mál! Hins vegar má alveg muna eftir því að þau hlutföll urðu ekki jöfn fyrren eftir að ungur maður (sem tekinn hafði verið framfyrir reynslumeiri konur) hætti í félagsmálaráðuneytinu auk þess sem kvenráðherra var á sínum tíma fórnað til þess að formaður flokksins (sem var og er karl) gæti orðið forsætisráðherra!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Það er af og frá að ætla að fara hlutast til um úrslit lýðræðislegra kosninga með því að rígbinda í lög kynjakvóta. Held að það hljóti að vera miklu mun heppilegra að leita hófsamari leiða til að ná fram þeim markmiðum sem þú nefnir hér að ofan - til dæmis efast ég ekki um að það að gera landið allt að einu kjördæmi myndi vera eitt stærsta framfararskref í baráttunni fyrir fjölgun kvenna á þingi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk til dæmis 22 þingsæti síðast, sem 18 karlmenn og 4 kvenmenn fylltu. Ef stillt væri upp á einn lista hefði flokkurinn aldrei komist upp slíka ósvinnu og hlutföllin væru miklu mun jafnari. Góðum árangri væri hægt að ná með þessari aðferð, ég er sannfærður um það.

Þú veist annars hvar skoðanir mínar um höfðatölujafnrétti er að finna!

Agnar Freyr Helgason, 28.2.2007 kl. 14:34

2 Smámynd: Helga Tryggvadóttir

Haha, já! hef heyrt þennan áður ....

Ég er sammála um að það yrði mjög til bóta að gera landið að einu kjördæmi, og ef það dugar til að jafna kynjahlutföllin er það auðvitað hið besta mál (að mínu mati eru kynjakvótar úrræði sem á auðvitað ekki að grípa til nema brýn þörf sé til). 

Ég samt ekki að sjá þetta einskjördæmismál verða að veruleika í nánustu framtíð, og á meðan getur hitt virkað fljótt og vel! Svo er bara hægt að fella kynjakvótana niður þegar þeir hafa gert sjálfa sig óþarfa!

Helga Tryggvadóttir, 28.2.2007 kl. 16:12

3 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Tilgangurinn helgar ekki meðalið! En já, við verðum líklega að vera sammála um að vera ósammála

Agnar Freyr Helgason, 28.2.2007 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband